38 ára gömul hljómplata slær aftur í gegn og það hjá sömu fjölskyldu
16.1.2015 | 10:59
Það er kúnst að hlusta. Hvort heldur það er við að hlusta á útvarpið eða þann sem maður talar við þá og þá stundina. Hver kannast ekki við það að viðmælandi manns virðist ekki vera að hlusta á mann. Þegar það gerist þá líður mér alltaf einsog persónu í leikriti eftir Samuel Beckett. Þykir það ekkert leiðinlegt því hann er einmitt mitt uppáhalds leikskáld. Skemmtilegast er þó þegar viðmælandinn hlustar ekki bara á mann heldur grípur hann líka fram í fyrir sjálfum sér. Þá þarf maður bara að gera það sama og félagarnir í Beckett meistarastykkinu, Beðið eftir Godot, bíða og hlusta.Í raun er maður að hlusta allann daginn meira að segja þegar maður er einn þá er maður alltaf að hlusta á eitthvað. Hér fyrir vestan er voða gott að hlusta á veðrið og setja sig í listamannastellingar og vera að pæla eitthvað voða merkilegt, sem oftar en ekki engin skilur en það er nú aukaatriði. Fátt er svo skemmtilegra en að hlusta á góða tónlist og hvað þá ef hún kemur frá hljómplötu, má gjarnan vera aðeins rispuð og spiluð. Í æsku hlustaði ég mikið á hljómplötur, já ég er orðinn þetta gamall, eða hvað er ekki hljómplatan að ,,koma svo mikið aftur" einsog álitsgjafar fjölmiðla segja svo oft. Mikið er það annars skrítið hve fámennur þessi álitsgjafa hópur er hjá ,,mediunni" ég meina er ekki mikilvægt að hafa þetta soldið opið heldur enn allt fast í kassa. Þetta er náttúrulega álitamál svo ekki meir um það heldur frekar að listinni að hlusta. Sumir vilja meina að okkar frábæra æska kunni ekki að hlusta. Gott ef þetta var nú ekki sagt einnig á mínum æskuárum. Ég var meira að segja að lesa heila ritgerð sem fjallaði um þetta málefni. Mjög vel unnið verk eftir Viktor Má Bjarnason og nefnist Eru börn hætt að hlusta? Ritgerð þessa má lesa á netinu og ég mæli með því að þið kikkið á hana um leið og þið t.d. hlutið á góða hljómplötu.
Á mínu heimili er aftur kominn í húsið hljómplötuspilari. Stoltin mín, dætur mínar þrjár, hafa allar fengið að kynnast hljóðheimi hljómplötunnar og gott ef þær eigi ekki bara góðar minningar um það þegar pabbi, einn ganginn enn, hóaði um leið og hann rótaði í hljómplötubúnka æsku sinnar. Dregur svo upp eina. Hver er það jú sama plata og síðast. Hin 38 ára gamla Pétur og úlfurinn. Ævintýri eftir Sergi Prokofieff þar sem sögumaðurinn er engin annar en Bessi Bjarnason. Hver var nú það, var þá gjarnan spurt? Eftir fylgdi örfyrirlestur pabbans um þennan einstaka gamanleikara og gjarnan endað á að leika afann í hinum einstöku sjónvarpsþáttum Föstum liðum einsog venjulega. Ef þetta vakti ekki kátínu þá var það bara klassíkin: Láttu ekki einsog þú sért ekki þarna ég sé þig vel, Lilli. Og þá loks var sagt: Já, hann. Nú er pabbinn aftur kominn í leikarargírinn og hefur reyndar hækkað í hlutverki því nú er hann orðinn afi. Um daginn kom prinsípesí afastelpan mín í heimsókn. Þegar það gerist þá leggur afinn allt annað frá sér og verður strax einsog afinn í Föstum liðum, já, já fer jafnvel í búninga. En þennan dag hafði afinn önnur áform já nú átti að kynna hinn dásamlega hljóðheim hljómplötunnar. Gömlu góðu barnahljómplötur æskunnar. Afi bara allt í einu orðinn ,,dídjey."
Fyrst var það Emil í Kattholti með Helga Hjörvar í hlutverki prakkarans en gaman er að geta þess að hann er enn í leikhúsinu og fer þar mikinn á pallinum. Svo var það náttúrulega hinn höfundur æskunnar Thorbjörn Egner fyrst Kardóið og svo Dýrin.Afinn hlustaði og fór jafnvel í barndóm því meðan á þessu stóð hafði hann byggt hús, bíl og flugvél, allt úr Legókubbum. Sú stutta dundaði sér einnig við þessa yðju og oftar en ekki tók hún undir. Sérstaklega þegar Mikki refur kom við sögu. Hljómplötuumslögin vöktu líka athygli hennar verst hvað það var lítið af myndum. En svo sá hún eina hljómplötu sem var með mörgum myndum og með nema hvað einum vondum. Úlfi. Stór mynd sem sýndi soltinn og slefandi trant úlfsins. En þarna var líka strákur. Í gulum bol með einskonar ofurhetju eldingingu á miðju bolsins.
Afi hlustum á þessa.
Nú varð sá gamli extra kátur. Vippaði nálinn af Hrekkjusvínum, en þá var það frábæra verk á fóninum. Varlega var svo sett nálin niður á hinni mjög svo kæru hljómplötu afans hinni 38 ára gömlu Pétur og úlfurinn með Bessa. Þetta var einsog í sögunni þarna sem engin man lengur hvað heitir, þakið datt nærri af húsinu. Slíkir voru töfrarnir. Mun minna var kubbað núna því við vorum að hlusta. Hlusta á hljómplötuna Pétur og úlfurinn með Bessa. Ég, afi gamli 43 ára gamall, og hans afa stelpa, alveg að verða þriggja.
Í gær kom svo afaskottið í heimsókn og hvað haldiði að hún hafi sagt? Nema: Afi, hlusta á Pétur og úlfinn.
Það er dásamlegt að hlusta og hvað þá að geta hlustað saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.