Sagan búin

bokastollBækur er nokkuð sem eru í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Þrátt fyrir nýlega bætingu á bókahillum, já bara núna í haust, þá fækkar auðu hillunum hratt. Ljóst er að bráðlega verð ég að bjóða mínum betri helmingi með í Betra bak á Ísafirði og finna þar bókahillu sem passar við allar hinar. Reyndar er engin af þeim í stíl svo kannski er bara best að hafa þetta áfram fjölbreytt og skrautlegt alveg einsog íbúar hillanna. Í gær lauk ég við tvær bækur og engar smá bækur. Ég hef þann háttinn á einsog margir að vera að lesa nokkrar bækur í einu. Í gæraften fluttu sem sé tvær af náttborðinu og aftur í sína hillu, reyndar voru aðrar komnar á þeirra fyrrum stað nýfluttar vestur úr Góða hirðinum en það er bara gaman að vera í kompaní við einhvern annan t.d. Þórberg sem fer nú ört fjölgandi á ört stækkandi bókaheimili. En þessir doðrantar margumtöluðu voru hin áhrifaríka Kata eftir Steinar Braga, stundum varð ég bara að hvíla lesturinn svo tók þessi lesning á. Hinn doðranturinn einar hvað 532 síður ef ég man rétt er Harry Potter og Blendingsprinsinn sem ég hef verið að lesa með síðburði mínum. Það er alltaf svolítið sérstakt að klára bók, ljúka síðustu blaðsíðunni og bara allt í einu kemur að þessari stund. Að sagan sé búin. Þannig endum við nú oft lesturinn ég og afastelpan mín Saga Nótt. Sama hver sagan er þá endum við alltaf á því að segja eftir lokapunktinn. Sagan búin. Svo verður alltaf smá þögn, sem gerist nú reyndar sjaldan sem þegar við hittumst en svo tökum við upp næstu bók og byrjum að lesa. Þannig fylgir bókin manni alveg frá morgni til kvelds og þetta eru bara alveg dásamlegar stundir. Hvort heldur maður les fyrir sjálfan sig eða þá sem mestu skipta, börnin sín. 

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband