Pabbi minn er miklu merkilegri en pabbi þinn því hann á bæði ritvél og gítar

Eitt af markmiðum ársins hjá mér er að lesa meira. Þó ég sé ekkert voðalega gamall á þá á ég aggoti mikið bókasafn sem bara stækkar. Einhver sagði að eftir því sem bókasafnið er stærra þeim mun minna er lesið. Ekki sagt útí hött og ég tók þetta beint til  mín og hef nú einsett mér að lesa upp mitt bókasafn. Ekkert skipulega fer bara í eina af hinum níu bókahillum heimilisins og finn mér það sem heillar það og það sinnið. Þessa dagana er ég að leikstýra Galdrakarlinum í Oz á Þingeyri. Það finnst mér gaman alveg frábært fólk sem þar býr sem sannarlega hefur gaman af lífinu enda skín leikgleðin úr öllum andlitum. Það er einmitt lykillinn að leikhúsinu að leikarinn hafi gaman. Því það er alveg ljóst að ef leikarinn hefur ekki gaman þá þarf ekki að spyrja að líðan gónandans heldur. Hver æfing er ævintýri og mikið hlegið.

Á milli æfinga gefst einstakt tækifæri til að lesa. Gott að sökkva sér inná milli í einhverjar skruddur sem tengjast ekkert efninu og ekki er heldur sniðugt að vera að lesa önnur leikrit, finnst mér, meðan á æfingaferlinu stendur. Allvega virkar það þannig hjá okkur köllunum. Já, hin margtugða setning: Að við getum ekki einbeitt okkur nema að einu í einu. Er ekkert fiasko heldur staðreynd. Núna greyp ég úr mínu bókasafni skræðu af handahófi sem er eftir Ása í Bæ og heitir Sá hlær bezt...Hér er hann að rifja upp ævina og kann sannarlega að segja frá. Þetta er alveg tveggja koníaks bók, sko. Í upphafi bókar er skemmtilegt samtal sem Ási heyrði útum gluggan hjá sér. Þar voru börn hans og annarra börn að metast um ágæti sinna feðra. Hinir krakkarnir byrja að stæla sig:

Pabbabátur er alveg svona stór.

Sonur minn þagði. Dóttir mín söng.

Pabbi minn veiðir marga fiska í sjónum.

Pabbi minn á ritvél með mörgum stöfum á.

Það er helmingi stærri vél í pabbabát sem segir trrrrrr....

Pabbi minn á gítar sem segir helmingi sinnum fallegra.

Gítar skítar, a heldurðu það sé nokkuð mikið.......pabbi minn á mörg net með flöggum á....og kálgarð.

Pabbi minn á líka kálgarð.

Pabbi þinn á ekki húsið.

Ojú.

Onei, hann Stebbi á það, það segir pabbi minn.

Sonur minn þagði.

Rödd dóttur minnar: Pabbi minn á voða fínt hús í bók helmingi þúsundsinnum fallegra en þitt hús með ljótum glugga attaná.

Ja há, sagði sonur minn.

Og hann á líka skessu í bók, sem getur alveg étið þig, sagði dóttir mín.

Ja há, sagði sonur minn.

 

Nú velti ég fyrir mér ætli mínar dætur hafi átt svona samtal við jafnaldra sína og vini?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband