Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015
Eitt af markmiðum ársins hjá mér er að lesa meira. Þó ég sé ekkert voðalega gamall á þá á ég aggoti mikið bókasafn sem bara stækkar. Einhver sagði að eftir því sem bókasafnið er stærra þeim mun minna er lesið. Ekki sagt útí hött og ég tók þetta beint til mín og hef nú einsett mér að lesa upp mitt bókasafn. Ekkert skipulega fer bara í eina af hinum níu bókahillum heimilisins og finn mér það sem heillar það og það sinnið. Þessa dagana er ég að leikstýra Galdrakarlinum í Oz á Þingeyri. Það finnst mér gaman alveg frábært fólk sem þar býr sem sannarlega hefur gaman af lífinu enda skín leikgleðin úr öllum andlitum. Það er einmitt lykillinn að leikhúsinu að leikarinn hafi gaman. Því það er alveg ljóst að ef leikarinn hefur ekki gaman þá þarf ekki að spyrja að líðan gónandans heldur. Hver æfing er ævintýri og mikið hlegið.
Á milli æfinga gefst einstakt tækifæri til að lesa. Gott að sökkva sér inná milli í einhverjar skruddur sem tengjast ekkert efninu og ekki er heldur sniðugt að vera að lesa önnur leikrit, finnst mér, meðan á æfingaferlinu stendur. Allvega virkar það þannig hjá okkur köllunum. Já, hin margtugða setning: Að við getum ekki einbeitt okkur nema að einu í einu. Er ekkert fiasko heldur staðreynd. Núna greyp ég úr mínu bókasafni skræðu af handahófi sem er eftir Ása í Bæ og heitir Sá hlær bezt...Hér er hann að rifja upp ævina og kann sannarlega að segja frá. Þetta er alveg tveggja koníaks bók, sko. Í upphafi bókar er skemmtilegt samtal sem Ási heyrði útum gluggan hjá sér. Þar voru börn hans og annarra börn að metast um ágæti sinna feðra. Hinir krakkarnir byrja að stæla sig:
Pabbabátur er alveg svona stór.
Sonur minn þagði. Dóttir mín söng.
Pabbi minn veiðir marga fiska í sjónum.
Pabbi minn á ritvél með mörgum stöfum á.
Það er helmingi stærri vél í pabbabát sem segir trrrrrr....
Pabbi minn á gítar sem segir helmingi sinnum fallegra.
Gítar skítar, a heldurðu það sé nokkuð mikið.......pabbi minn á mörg net með flöggum á....og kálgarð.
Pabbi minn á líka kálgarð.
Pabbi þinn á ekki húsið.
Ojú.
Onei, hann Stebbi á það, það segir pabbi minn.
Sonur minn þagði.
Rödd dóttur minnar: Pabbi minn á voða fínt hús í bók helmingi þúsundsinnum fallegra en þitt hús með ljótum glugga attaná.
Ja há, sagði sonur minn.
Og hann á líka skessu í bók, sem getur alveg étið þig, sagði dóttir mín.
Ja há, sagði sonur minn.
Nú velti ég fyrir mér ætli mínar dætur hafi átt svona samtal við jafnaldra sína og vini?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ég hringdi í Diddú
9.2.2015 | 10:35
Í síðasta pistli var ég að ræða raunir símasölumanna sem margur landinn hefur spreytt sig á. Í fullyrði að þetta er einhver erfiðasta vinna sem ég hef unnið. Vissulega eru þetta átök þó ekki líkamleg heldur miklu frekar andleg þú þarft að nota þinn sjarma og í raun selja ekki bara vöruna heldur og sjálfan þig. Má kannski segja að maður hafi verið að þessu síðan í listinni. Erum við ekki alltaf að reyna að selja okkur listamennirnir?
Allavega minn símasölutími ævinnar var ekki langur en samt nokkuð tíðindamikill. Þarna var ég á skrifstofu í Síðumúla í Reykjavík og starfaði fyrir bókaútgáfu sem gaf aðallega út matreiðslubækur og hvað þetta er kallað svona lífstílsrit. Þarna var t.d. Handbók heimilisins. Á minni fyrstu vakt var ég stjórnustunginn hvorki meira né minna. Einn sölumannanna, þessi á næsta bás við mig, var söngvari og mikill listamaður. Þetta var kallinn sem söng svo listilega Don't Træ Tú Fúl Mí.
Hann heilsaði kurteislega og einlæglega. Ég byrjaði náttúrlega strax að spyrja einsog hálfviti, ert þú ekki Don't Træ Tú Fúl Mí kallinn. Hann hló: Jú, sá hinn sami. Þeir segja þetta líka í símann stundum sem ég tala við á þessari vakt.
Þögn. Svo hló hann. Ég líka. En fattaði samt ekki djókið fyrr en ég var kominn heim af vaktinni. Já, þarna sá ég það kristaltært það er mikilvægt að halda í grínið og sérstaklega í listinni. Þetta er helv...hark og minnkar lítið með árunum.
Eftir að hafa verið settur í söluhlutverkið og jafnað mig á símasölunágrana mínum, stórlistamanninum. Þá hófst ég handa við að hringja:
Sigfús?
Ha, já.
Sæll vertu, þetta er Elfar Logi hjá Bókaútgáfunni. Eru menn ekki bara kátir og klárir á þessu indæla mánudagskveldi.
Ég veit ekkert hvað gerðist en svona talaði ég við þennan Sigfús sem ég hafði reyndar aldrei talað við áður. Var ég kannski þessi umtalaði Sölumaður dauðans? Viti til Sigfús kallinn keypti af mér Stóru kökubókina þrátt fyrir að hafa aldrei á ævinni bakað köku og átti ekki einu sinni konu.
Svona hélt ég áfram valdi fórnardýrin af listanum sem yfirmaðurinn fékk mér í upphafi vaktar. Strokaði yfir hvert nafnið á fætur öðru og hringdi í það næsta án þess stundum að pæla hvert ég væri að hringja. Stundum þurfti ég að gæta á blaðið þegar svarað var áður en ég sagði minni smeðjulegu röddu:
Já, Sigríður?
Viti menn hún keypti Handbók heimilisins. Skellt á og næsta númer hringt og svarað svona líka glaðlega ef ekki bara sungið:
Halló, ha - ha - ló.
Halló, já Sigrún Hjálmtýsdóttir?
Það er hún, var svarað ofurhresst.
Já, komdu sæl þetta er Elfar Logi hjá Bókaútgáfunni er ég nokkuð að trufla?
Nei, alls ekki er reyndar á leið á æfingu en hvert er erindið?
Æfingu, já það veitir ekki af að halda sér í formi. Ég er einmitt með heilsubókina Þú getur betur....
Svona hélt ég áfram og masaði einsog Leanardo de Caprio löngu síðar í hlutverki einhvers Úlfs. Sannarlega var ég í einhverri gæru og gott ef ég gólaði ekki líka. En mín var ekki kápan úr klæðinu að þessu sinni. Sigrún þessi var reyndar afskaplega kurteis og áhugasöm en svo afgreiddi hún þetta með snöggt.
Heyrðu vinur minn Elfar Logi Dónt Træ Tú Fúl Mí.
Og þá fattaði ég það. Ég var að tala við Diddú. Söngkonuna sem var í Spilverkinu og söng með uppáhaldinu mínu Agli Ólafs og allt. Hún er meira að segja frænka mín, segir pabbi sko. Og ég var að reyna að selja Diddú einhverja ómerkilega heilsubók. Ég renndi skrifborðsstólnum aftur á bak frá lúnu skrifborðinu. Næsti stóll við hlið rúllaði af stað og stórstjarnan kollegi minn mælti:
Velkominn í hópinn ungi listamaður, og bætti svo við:
Dónt Træ Tú Fúl Mí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vodafone vill þig í viðskipti án þjónustu
6.2.2015 | 13:49
Síminn hringir:
Já, góðan dag Elfar?
Já.
....hjá Vodafone.
Hver kannast ekki við símtöl sem byrja með þessum ofurkurteislega mæltu orðum? List sölumannsins er mikil í það hlutverk fer ekki hver sem er. Því þeir sem valda ekki rullunni þeir fá líklega ekki útborgað því oft er nú símasölumönnum borgað eftir nældum fórnardýrum í hús. Einu sinni prófaði ég svona var sölumaður hjá bókaútgáfu. Var aðallega að selja matreiðslubækur. Þetta var á þeim árum þegar ég var nýút(skúf)skrifaður leikari haustið 1997. Merkilegt nokk þá seldi ég vel en þegar ég kom heim var ég oft með klíu í röddinni. Heilsaði konunni sérlega smeðjulega svo hennar fyrsta spurning var: Hvað hefurðu nú gert að þér?
Eitt þeirra fyrirtækja sem hefur soldið hringt í mig í gegnum tíðina með sínum ofurhamingjusömu sölumönnum er Vodafone sem sumir kalla Voðafón er reyndar farinn að skilja þann nafnaleik í dag. Ég hef alla tíð þar til í haust verið í viðskiptum hjá hinum risanum Símanum. En hinn ofurkáti sölumaður Vodafone í haust sem leið náði mér og ég flutti allt heila appartið yfir. Allt já alla síma og líka sjónvarpsþjónustuna. Af hverju? Jú, hin ofurjákvæði sölumaður sagði mér að þetta væri ódýrara hjá þeim. Hann hefur ekkert þurft að éta það ofaní sig því í dag borga ég minna fyrir alla þessa mikilvægu þjónustu nútímamannsins. Munar alveg um þrjúþusund kall á mánuði sem gerir þá 36.000 kallinn á ári. Alveg hægt að nota þá kalla í eitthvað.
Hinsvegar er leitt frá því að segja að líklega hefur hinn ofurhressi Voðafónsölumaður lokið störfum eða þá að hann sjái aðeins um að lokka fólk til fyrirtæksins, fá peningana þeirra því þjónusta mun ekki vera á dagskrá ja nema þá fyrir meiri peninga. Já, það hefur verið bölvað, afsakið orðbragðið, ólán á sjónvarsþjónustu Voðafón. Þetta er að sjálfsögðu, þökk sé tækninni, í gegnum netið.
Meina hver þarf loftnet í dag mar'?
Já, maður spyr sig.
Sjónvarpsútsending okkar hér í Strætinu á Ísó hökktir líkt og fyrstu bifreiðar heims. Höktið tekur öllu öðru fram þegar maður ferð á hið nefnda ,,vodd" sjónvarpsþjónustu. Við viljum gjarnan nýta okkur hana og horfa á það sjónvarpsefni sem við viljum þegar okkur hentar. Enda er það galdur þessarar þjónustu.
Nú hið söluvænlega fyrirtæki Vodafone bíður uppá þá einstöku tækniþjónustu að í stað þess að hringja og kvarta þá getur þú sent þeim línu í gegnum heimasíðuna. Frábært ég geri það. Vissulega ánægjulegt að þurfa ekki að hlusta á lyftutónlist í hálftíma en að svarið komið eftir nokkra klukkutíma hina leiðina er sannarlega í stíl við höktþjónsutu ,,voddsins" hjá viðkomandi. Jæja, ekki skorti svörin í fyrstu:
Ég ætla að prófa að fikta í tökkum mín megin en annars hefur verið ólán á þessu hjá okkur en erum að laga þetta en ætti að vera komið í lag kl.16 í dag.Prófaðu samt að taka úr sambandi....(og jari jari allt þetta)
Um mánuður síðan þetta svar barst.Ég sendi aftur línu hálfum mánuði síðar um að þetta hafi ekkert lagast. Ekki skortir svarið en nú er þetta meira mitt vesen en þeirra:
Já, það þarf líklega að kíkja á þetta. Það þarf að senda mann til þín það kostar 4.500. kr hálftíminn. Hann mun líklega þurfa að skipta um snúru og eitthvað.....
Minn ekki sáttur með þetta svara um hæl að ég ætli nú ekki að fara að borga fyrir að fá hingað viðgerðamann til að laga það sem á að vera í lagi hjá ykkur. Auk þess bætti ég við að ,,voddið" hjá samkeppnisaðilanum hafi ekki höktað. Enn værum við á sama stað, með sama net og sama sjónvarpstæki. Svarið:
Ja, þú getur nú alveg skipt um þessa snúru sjálfur. Ef það er hún sem er vandamálið.
Æ, segi ég bara. Afhverju þarf þetta að vera svona greyjið sölumaðurinn hafði svo mikið að fá mig til að koma yfir í Vodafone. En til hvers?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Huxum
1.2.2015 | 17:14
Hvað ætli maður hugsi nú oft á sólarhring? Er maður kannski bara að pæla allan liðlangan daginn. Enda eru margar pælingar dagsins. Ein sú vinsælasta er líklega: Hvað á ég að hafa í matinn? Eða: Í hverju á ég að vera í dag? Svo halda náttúrulega pælingarnar áfram þó ákvörðun hafi verið tekin. Ég hefði kannski frekar átt að hafa kjöt en flatböku. Afhverju fór ég ekki í grænu gallabuxurnar frekar en þessar gulu?
Afhverju er ég nú að hugsa um þetta. Jú ég datt nefnilega niður á bók sem heitir því skemmtilega nafni Eitthvað að huxum eftir Þorgeir Þorgeirsson. Einn af hugsunarstöðunum er nú gjarnan bókasafnið. Þá leita á mann margar hugsanir t.d. bara sú hvaða bók ætti ég að taka með mér heim Kalman eða Guðrúnu Helgadóttur eða kannski bara eina Yrsu. Ég er reyndar alltaf búinn að ákveða hvaða bók eða bækur ég er að fá lánaða á bókasafninu það og það skiptið. Lang oftast tengist það verkefnum sem ég er að vinna að, alltof sjaldan rit til að lesa bara til skemmtunar eða bara ,,afþví bara".
Þó kem ég stundum sjálfum mér á óvart og ákveð að villast aðeins á bókasafninu hér hjá okkur á Ísafirði. Skoða einhverja hillu sem ég hef aldrei kikkað á eða lítið sýnt áhuga. Um daginn fór ég t.d. í hagfræði hilluna og fann þar hina frábæru bækur um menningarhagfræði eftir Ágúst Einarsson. Vil nota tækifærið hér og þakka honum fyrir sitt framlag til handa lista og menningarlífi á Íslandi. Þarna eru staðreyndirnar settar upp á súlurit og allskonar töflur einmitt það sem ráðamenn þurfa að hafa til að átta sig á að listin skilar peningum í kassann. Legg til að það verði gert að reglu að við hverjar þingkostningar fái hinir nýkjörnu eintak af Menningarhagfræði herra Einarssonar. Gera svo enn betur og færa sveitarstjórnarráðamönnum eintak við upphaf hvers kjörtímabils. Ekki spyrja mig hver á að borga bækurnar - þið finnið útúr því.
Um daginn fór ég í eina hilluna sem ég hef lítið kikkað á áður og fann þar bók sem heitir einmitt Eitthvað að huxum. Höfundur er Þorgeir Þorgeirsson sem hefur sent áður frá sér tvær ljóðabækur. Bókina prýða ljósmyndir eftir Björn Erlingsson. Á bókarkápu er mjög draumkennt og heillandi málverk eftir Kristjönu F. Arndal.
Aldrei hef ég heyrt um þessa bók né séð neitt um hana neins staðar. Það eru nú líka því miður þannig að þær bækur sem fá umfjöllun eru ekki stór prósenta af þeim bókum sem útkoma hér á landi. Því miður ræður tískan og stjörnusmjaður þar. Þessi bók fær mann sannarlega til að huxa, svo ég haldi mér við orðaleik bókarheitisins, og um reynar gífurlega margt. Þarna er nefnilega teflt saman tveimur kynslóðum. Unga manninum og þessum gamla. Þeir hittast reglulega, liklega yfir kaffbolla þó það komi ekki fram í bókinni, og hafa skoðanaskipti. Formið er þannig að sú ungi kastar fram huxun og sá eldri svarar með annarri hugsun. Hér koma nokkrar hugsanir þeirra félaga:
Við erum öll umhverfissinnar.
- Nema í verki.
Fréttablaðið.
- Viðskiptahugmynd.
Þarfasta þingið.
- Ruslafatan.
Hvað á barnið að heita.
- Nægir ekki kennitala?
,,Ísland sækjum það heim."
- Það er hvergi friður.
Já, það má huxa sér margt verra en að lesa þessa bók Þorgeirs Þorgeirssonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)