Þegar ég hringdi í Diddú

Í síðasta pistli var ég að ræða raunir símasölumanna sem margur landinn hefur spreytt sig á. Í fullyrði að þetta er einhver erfiðasta vinna sem ég hef unnið. Vissulega eru þetta átök þó ekki líkamleg heldur miklu frekar andleg þú þarft að nota þinn sjarma og í raun selja ekki bara vöruna heldur og sjálfan þig. Má kannski segja að maður hafi verið að þessu síðan í listinni. Erum við ekki alltaf að reyna að selja okkur listamennirnir?

Allavega minn símasölutími ævinnar var ekki langur en samt nokkuð tíðindamikill. Þarna var ég á skrifstofu í Síðumúla í Reykjavík og starfaði fyrir bókaútgáfu sem gaf aðallega út matreiðslubækur og hvað þetta er kallað svona lífstílsrit. Þarna var t.d. Handbók heimilisins. Á minni fyrstu vakt var ég stjórnustunginn hvorki meira né minna. Einn sölumannanna, þessi á næsta bás við mig, var söngvari og mikill listamaður. Þetta var kallinn sem söng svo listilega Don't Træ Tú Fúl Mí.

Hann heilsaði kurteislega og einlæglega. Ég byrjaði náttúrlega strax að spyrja einsog hálfviti, ert þú ekki Don't Træ Tú Fúl Mí kallinn. Hann hló: Jú, sá hinn sami. Þeir segja þetta líka í símann stundum sem ég tala við á þessari vakt.

Þögn. Svo hló hann. Ég líka. En fattaði samt ekki djókið fyrr en ég var kominn heim af vaktinni. Já, þarna sá ég það kristaltært það er mikilvægt að halda í grínið og sérstaklega í listinni. Þetta er helv...hark og minnkar lítið með árunum. 

Eftir að hafa verið settur í söluhlutverkið og jafnað mig á símasölunágrana mínum, stórlistamanninum. Þá hófst ég handa við að hringja:

Sigfús?

Ha, já.

Sæll vertu, þetta er Elfar Logi hjá Bókaútgáfunni. Eru menn ekki bara kátir og klárir á þessu indæla mánudagskveldi.

 

Ég veit ekkert hvað gerðist en svona talaði ég við þennan Sigfús sem ég hafði reyndar aldrei talað við áður. Var ég kannski þessi umtalaði Sölumaður dauðans? Viti til Sigfús kallinn keypti af mér Stóru kökubókina þrátt fyrir að hafa aldrei á ævinni bakað köku og átti ekki einu sinni konu. 

Svona hélt ég áfram valdi fórnardýrin af listanum sem yfirmaðurinn fékk mér í upphafi vaktar. Strokaði yfir hvert nafnið á fætur öðru og hringdi í það næsta án þess stundum að pæla hvert ég væri að hringja. Stundum þurfti ég að gæta á blaðið þegar svarað var áður en ég sagði minni smeðjulegu röddu:

Já, Sigríður?

Viti menn hún keypti Handbók heimilisins. Skellt á og næsta númer hringt og svarað svona líka glaðlega ef ekki bara sungið:

Halló, ha - ha - ló.

Halló, já Sigrún Hjálmtýsdóttir?

Það er hún, var svarað ofurhresst.

Já, komdu sæl þetta er Elfar Logi hjá Bókaútgáfunni er ég nokkuð að trufla?

Nei, alls ekki er reyndar á leið á æfingu en hvert er erindið?

Æfingu, já það veitir ekki af að halda sér í formi. Ég er einmitt með heilsubókina Þú getur betur....

Svona hélt ég áfram og masaði einsog Leanardo de Caprio löngu síðar í hlutverki einhvers Úlfs. Sannarlega var ég í einhverri gæru og gott ef ég gólaði ekki líka. En mín var ekki kápan úr klæðinu að þessu sinni. Sigrún þessi var reyndar afskaplega kurteis og áhugasöm en svo afgreiddi hún þetta með snöggt.

Heyrðu vinur minn Elfar Logi Dónt Træ Tú Fúl Mí.

Og þá fattaði ég það. Ég var að tala við Diddú. Söngkonuna sem var í Spilverkinu og söng með uppáhaldinu mínu Agli Ólafs og allt. Hún er meira að segja frænka mín, segir pabbi sko. Og ég var að reyna að selja Diddú einhverja ómerkilega heilsubók. Ég renndi skrifborðsstólnum aftur á bak frá lúnu skrifborðinu. Næsti stóll við hlið rúllaði af stað og stórstjarnan kollegi minn mælti:

Velkominn í hópinn ungi listamaður, og bætti svo við:

Dónt Træ Tú Fúl Mí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband