Í dag fór ég á hausinn, aftur

Hef aldrei þótt sleipur á svellinu ekki einu sinni þegar ég renndi mér á skautum á að dettavatninu við Litlu Eyrar fjöru á Bíldudal. Það var reyndar sjaldan það kalt á Bíldudal að skautafært væri. Enda ekki að ástæðulausu sem margir vilja frekar telja Bíldudal með Spánverjalandi frekar en einhverju ísalandi. Hitt er svo enn algengara að maður fljúgi á höfuðið án skauta og er það yfirleitt verra. Hvað þá eftir að fleiri ár bætast við lífsklukkuna. Ég flaug einmitt á höfuðið rétt áðan. Var að koma úr undirgöngunum hér í Strætinu á Ísó. á leið á vinnustofuna mína í Tónlistarskólanum, áður Húsmæðraskólinn. Flaug í loft upp líkt og þegar snillingurinn Laddi lék þetta svo snildarlega í einum gamanþætti á eittístímabilinu. Gott ef þessir þættir hétu ekki Gættu að því hvað þú gerir maður? Það er staðreynd að þegar maður er ekki viðbúinn þá verður fallið oft mikið og hátt allavega var þetta engin ofleikur hjá mér. Í loft upp fór ég og lenti á vinstri síðunni. Fyrsta sem ég gerði var ekki að strjúka síðuna. Nei heldur standa upp eins hratt og ég gæti einsog þetta hafi ekki gerst. Nei, ha ég, ég er bara góður sko. Leit snöggt í kringum mig. Sá byltuna einhver? Var einhver Gróa í glugganum í húsasundinu? Engan sá ég allavega svona snöggt til litið. Skundaði svo af stað einsog Grettir sterki eða Gísli Súri jafnvel. Þegar ég kom fyrir næsta horn var síðunni loks strokið og ég fann að hún var aðeins aumari en fyrir fallið. 

Öll föll eiga að kenna manni eitthvað og þetta hefur svo sannarlega gert það. Í raun var þetta bara mér sjálfum að kenna. Því ég fékk nefnilega frá mínum lífsförunaut sérstaka skó í jólagjöf. Sko með innbyggðum mannbroddum. Lykill fylgir með til að spenna þá niður á skóna og svo setja þá aftur í hvíldarstöðu þegar hálkunni sleppir. Ég er náttúrulega svo mikill víkingur að ég taldi nú litla þörf á að vera að skella þessu gamladóti á skóna. Ég leikarinn sem hefur leikið Gísla Súrsson í áratug og er svo byrjaður að túlka Gretti líka lætur nú ekki sjá sig á götum Vestfjarða með mannbrodda. 

Nei, nei ég er ekkert súr yfir þessu. Nú er ég með mannbroddalykilinn tilbúinn í vasanum og um leið og ég sé svell framundan á göngu minni þá set ég öryggið á skóbúnaðinn. Annars gæti ég átt von á að förunauturinn segi líkt og í sjónvarpinu fyrrum daga:

Gættu að því hvað þú gerir maður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband